Hátíðarvín

Image
Hátíðarvín

Sá tími í kringum jól, áramót og páska, þegar við gerum hvað best við okkur í mat og drykk, leggjum við flest mikinn metnað og mikla vinnu í matinn og því mikilvægt að það vín sem valið sé með sé í svipuðum gæðaflokki. Þar með er ekki sagt að vínið þurfi að vera mjög dýrt – ekki frekar en að máltíð sem elduð er af ástríðu þurfi að vera út úr hófi kostnaðarsöm. Það er til mikið af dýrum og góðum vínum en það er líka hægt að fá mjög góð og stundum frábær vín á góðu verði.

Íslenski jólamaturinn er að mörgu leyti vínvænn en hann getur líka verið mjög erfiður þegar kemur að því að finna rétta vínið. Grunnhráefnið er oft eitthvað sem smellpassar með bestu vínunum: hreindýr, rjúpa, önd, villigæs, lambakjöt eða naut. Annað er erfiðara, ekki síst reykta og saltaða kjötið svo sem hangikjötið og hamborgarhryggurinn. Meðlætið getur líka verið bæði sætt og súrt sem auðveldar ekki málið þegar kemur að því að para vínið. En byrjum á þessu erfiða. Merkilegt nokk þá eru það oft hvítvín sem ráða best við erfiðustu málin. Það á við um erfiðustu ostana en það á líka við um t.d. hangikjötið. Og ekki bara hvaða hvítvín sem er. Það er eitt hérað sem öðrum fremur ber að horfa til og það er Alsace í Frakklandi. Þar eru framleidd vín sem eru í senn afskaplega fjölhæf þegar kemur að því að para þau við mat og að sama skapi eru þau ekki mjög dýr. Mörg af vínunum sem hér eru í sölu eru frá sumum af bestu framleiðendum héraðsins og þau kosta yfirleitt á mili  2-4000 krónur þótt einstaka af allra bestu vínunum sé aðeins dýrara. Vín úr þrúgunum Pinot Gris og Gewurztraminer eru nógu öflug til að ráða við flest það sem hægt er að bera á borð í erfiða flokknum. Með hangikjötinu er t.d. tilvalið að reyna Pinot Gris frá Trimbach. Hangikjöt með piparrótarsósu? Grafinn lax? Ekkert mál.  Pinot Blanc og Riesling-vínin frá Alsace eru síðan unaðsleg með flestu sjávarfangi.

Ef humar er borinn fram, hvort sem er grillaður eða kominn í súpu, má einnig halda aðeins suður á bóginn í Frakklandi og nema staðar í Búrgund í Mið-Frakklandi. Þar eru heimaslóðir Chardonnay-þrúgunnar og þar eru framleidd vín sem eiga betur við humar en flest annað. Í norðurhlutanum er það Chablis sem er málið, stílhrein, míneralísk og stundum svolítið “stíf” vín sem leika sér við humarinn eða annan góðan fisk. Hér eru fáanleg toppvín frá góðum framleiðendum á borð við Chablisienne og Bouchard Aine.  Eftir að krónan hrundi hafa Petit Chablis, sem eru einföldustu vínin, rutt sér til rúms og eru þau alveg hreint prýðileg. Það borgar sig hins vegar að fara í fullburða Chablis að maður tali nú ekki um vínin af bestu ekrunum sem eru flokkaðar sem Premier Cru og þær allra bestu af hæðinni fyrir ofan þorpið Chablis sem eru flokkaðar sem Grand Cru. Hvítvínin frá kjarnanum og suðurhluta í Bourgogne eru stærri og meiri um sig, yfirleitt eikuð. Þar er hægt að fá ágætis vín.

Með nautasteikinni og lambinu má í raun velja öll góð vín. Ef nautakjötið er gott og rauðvínið er gott þá eru meiri líkur en minni á að þau smellpassi saman. Það eru hins vegar nokkur svæði sem skera sig úr. Rioja á Spáni er tildæmis eitt af þeim að maður tali nú ekki um Ribera del Duero, en bæði þessi svæði eru hrikalega flott fyrir nautakjötsvín. Vínin frá Baron de Ley, El Coto, Montecillo og fleiri góðum húsum eru allt frábær nautakjötsvín. Og svo er það Ribera del Duero sem er einskonar ofurútgáfa af Rioja. Þar fengum við frábæra viðbót í flóruna nú þegar að hin mögnuðu vín Emilio Moro komu í sölu á afbragðsgóðu verð. Sama má segja um Cepa 21 vínin sem hafa komið mjög vel út.

Ein af bestu kaupin eru síðan frá Cigales svæðinu  Finca Museum Vinea.

En með nautinu og lambinu má líka horfa til Toskana á Ítalíu og þar er Chianti Classico vínið Marchese Antinori framúrskarandi en ef vilji er til að fara í ódýrari hlutina þá er Villa Antinori IGT fanta fínt.

Nýji heimurinn er síðan svæði sem ekki  má gleyma og margir kunna betur að meta þau vín heldur en hin evrópsku enda oft kröftugri og heitari heldur en vínin frá hinum svalari svæðum Evrópu. Vínin frá Chile hafa til dæmis notið eindæma vinsælda. Sem hátíðarvín má sérstaklega mæla með vínum úr Alpha-línunni frá Montes, Cabernet Sauvignon er alltaf í uppáhaldi, eða til dæmis Syrah – Viogner frá Vina Maipo. Nágrannarnir í Argentínu gera síðan frábær vín úr Malbec og Syrah – fullkomin með nautakjöti eru til dæmis Trivento Golden Reserve Malbec og Cabernet Sauvignon. Ástralarnir koma líka sterkir inn með Shiraz-vínin sín og þar má mæla með Peter Lehmann, bæði hinum hefðbundna Barossa, fullburða Futures Shiraz og ofurvíninu Stonewell. Sem sagt: naut og lamb er ekki vandamál.

Með villibráðinni er hægt að fara margar leiðir, hreindýrið, rjúpan og villigæsin kalla á toppvín. Þar má fara í góðan Bordeaux. Þeir sem vilja alvöru  Bordaux geta valið vín á borð við Chateau Pibran eða Cantenac Brown. Það er líka hægt að fara í Ítalana sem voru nefndir hér að ofan frá Toskana eða smella sér norður til Piedmont og fá sér góðan Nebbiolo/Barolo tildæmis frá hinum frábæra framleiðanda Prunotto. Eða góð Veneto-vín, reynið t.d. Monti Garbi frá Tenuta Sant Antonio.  Vínin frá Rhone í Frakklandi eiga líka mjög vel við og þar er hægt að velja úr góðum framleiðendum á borð við Guigal. Það er hægt að fara í hin mögnuðu Hermitage og Cote Rotie en frá toppframleiðendum eru jafnvel Cotes-du-Rhone vínin vel boðleg.

Og svo er það Suður-Frakkland sem hefur verið að koma hrikalega sterkt inn. Þar hefur lengi ekki verið úr miklu að moða en nú er eins og menn séu að vakna fyrir öllu því sem Frakkland hefur upp á að bjóða. Þar ber hæst vínin frá Gerard Bertrand sem líklega má segja að hafi gert meira en flestir síðustu árin til að lyfta kyndli Languedoc á loft. Þrjú vín verður að nefna sérstaklega: hið svakalega Chateau Hospitalet og síðan Chateau Sauvageonne og Pic St. Loup sem eru ótrúleg kaup í sínum verðflokki. Reserve Speciale lína Bertrand er líka frábær kaup þar sem menn geta valið þrúgurnar, Caberent Sauvignon, Pinot Noir, Syrah, Chardonnay og Viognier.

Það er sem sagt af nógu að taka. En svo eru það vínin sem eru “handan” léttvínanna, þ.e. styrktu vínin. Portvín eru yndisleg eftir matinn og ráða við hvort sem er sterkustu ostana, súkkulaðikökuna eða þá bera kaffið. Þá er til gott úrval af portvínum t.d. frá portvínshúsinu Graham’s og Osborne