Toskana stíllinn leynir sér ekki og ekki heldur þau frönsku. Dökkur, þroskaður ávöxtur, sólbökuð og sultuð skógarber, kirsuber, plóma, mynta og talsverð eik sem lýsir sér í dökku súkkulaði með vott af tóbakslaufum og kaffi í nefi. Mjúk og þægileg fylling, miðlungstannín og langt saðsamt eftirbragð.
Villa Antinori er það vín sem Antinori-fjölskyldan í Toskana hefur framleitt hvað lengst en það hefur jafnframt tekið hvað mestum breytingum af Antinori-vínunum. Lengi vel var Villa Antinori Chianti Classico en á síðustu árum hefur það orðið mun “alþjóðlegra” og franskar þrúgur, Cabernet Sauvignon, Merlot og Syrah eru nú tæpur helmingur blöndunnar og vínið því flokkað sem IGT. Í 2015-árganginum er það þó toskanska Sangiovese-þrúgan sem er algjörlega ríkjandi og stíllinn er mjög Chianti Classico-legur.