Prunotto er gamalgróið vínhús í Piemont á Ítalíu. Það varð upphaflega til þegar að Prunotto-fjölskyldan tók yfir vínsamlag bænda á Langhe svæðinu á fyrri hluta síðustu aldar. Smám saman jóx húsinu ásmegin og fór í samstarf við Antinori-fjölskylduna 1989 sem í fyrstu tók að sér dreifingu og sölu á vínunum en síðan einnig víngerðina.
Mompertone þessi er búinn til úr Barbera og Syrah þrúgum sem koma frá víngörðum í kringum bæinn Calliano á svæði sem nefnist Monferrato. Víngarðurinn er rúmur 11 hektarar að stærð og er í 300 metra hæð yfir sjávarmáli.
Djúp rauður að lit, ríkulegur ávöxtur af plómum og svörtum kirsuberjum ásamt vott af fjólum, kaffi og kryddtónum, þéttur og þykkur í munni með mjúkum tannínum, fínlegt og langt eftirbragð. Öflugt matarvín sem hentar flest öllu rauðu kjöti, pot au feu og ferskum ostum.