Portvín, sem eru tekin af tunnu eftir 4-6 ár og sett á flösku eru kölluð Late Bottled Vintage Port eða LBV. Mjög góð kaup eru í LBV portvínum og þurfa þau yfirleitt ekki lengri geymslu áður en þeirra neytt. Dökkfjólurautt að lit, öflugt í ilmi af dökkum og rauðum sultuðum berjaávexti, brómber, sólber ásamt fjólum og laufkryddi. Þétt fylling, sætt og heitt eftirbragð.
Douro-dalurinn í norðurhluta Portúgal er með fegurstu víngerðarhéruðum heims. Fljótið Douro hlykkjast um dalinn á lokasprett sínum að Atlantshafi og í bröttum hlíðunum berst vínviðurinn í grýttum jarðveginum á manngerðum syllum. Douro er auðvitað þekktast fyrir að vera hérað hinna styrktu vína, portvínanna, frægustu vína Portúgal.