Nafnið á svæðinu Vino Nobile di Montepulciano hefur yfir sér rómantískan blæ, hið göfuga vín. Og vissulega eru mörg vínanna af þessu svæði göfug eins og La Braccesca, eitt af vínunum úr smiðju Piero Antinori. La Bracceca vínbúgarðurinn nær yfir samtals 420 hektara land og býr til 5 mismunandi tegundir af rauðvínum. Uppistaðan er þrúgan Prugnolo Gentile sem er líka þekkt sem Sangiovese Grosso og Brunello. Fyrsti árgangur af þessum Vino Nobile kom út árið 1990.
Rúbín rautt að lit með ilm af þroskuðum rauðum berjum, rifsber, jarðaber og kryddjurtir og lyng ásamt sætum tóbaksilm, vanillu og kaffi. Í munni þétt og mjúk tannín í góðu jafnvægi og ilmurinn skilar sér í þykku og krydduðu bragði, löng og bragðgóð ending.