Trimbach-fjölskyldan hefur komið við sögu vínræktar í Alsace í á fimmtu öld. Það var hins vegar ekki fyrr en á nítjándju öld sem að vínin frá Trimbach slógu rækilega í gegn þegar Fréderic-Emil Trimbach fór með nokkur sýnishorn á heimssýninguna í Brussel árið 1898. Alla tíð síðan hefur þetta fjölskyldufyrirtæki í bænum Ribeauville verið í röðum fremstu framleiðenda héraðsins.
Þetta vín er engin smásmíði en það er hins vegar ekki yfirmþyrmandi heldur nær að halda flottum elegans. Gyllt að lit, mjög kryddað í angan, múskat, kanilstöng og vottur af blómum, ekki síst rósum, suðrænir ávextir, ferskja, litsí og appelsínubörkur, hálfþurrt með mikla, feita og sæta bragðfyllingu, mild sýra í löngu og krydduðu eftirbragði. Ekta vín með sterkkrydduðum mat, þroskuðum ostum og ávaxta eftirréttum.