Castelmondo er flokkað sem Valpolicella Superiore og er að auki Ripasso-vín. „Ripasso“-merkingin finnst manni oft vera tilraun til að fela miðlungsvín með sætu en þetta er alvöruvín, vandað og þurrt fyrir stílinn. Superiore-vínin eru geymd á viðarámum í ár hið minnsta. Ripasso er það hins vegar kallað þegar að þrúgumassanum, sem verður eftir við framleiðslu á Amarone-vínum, er blandað saman við Valpolicella-vín og gerjunin látin fara í gang á nýjan leik.
Kirsuberjarautt að lit, þroskaðar dökk kirsuber, vanilla, dökkt súkkulaði, krydd og salvía. Töluvert um sig í munni og í flottu jafnvægi, fersk sýra með djúpum krydduðum og sultuðum ávexti í nokkuð löngu eftirbragði.