Alsace

Image
Alsace - vínrækt

Alsace er á norðaustur horni Frakklands í skjóli Vosgesfjallanna annarsvegar en liggur að Þýskalandi hinsvegar þar sem áin Rín skilur á milli. Þrátt fyrir að Alsace er norðarlega, eru þar kjörnar aðstæður til vínræktar, sól, lítil úrkoma og frjósamur jarðvegur. Vosgesfjallgarðurinn ver víngarðana fyrir vestanvindum og einnig losa regnskýin sig við mikinn hluta af regnvatni í vestanverðum fjöllunum, svo úrkoma verður mjög lítil í víngörðunum, 400-500mm á ári. Jarðvegurinn er einnig fjölbreyttari en annarsstaðar í Frakklandi, og er hann fjölbreytt mósaík af kalksteini, möl, sandi, setbergi, móhellu, leir, flögusteini, granít og hraunkenndum jarðvegi. Jarðvegurinn hefur mikil áhrif á vínin. Loftslagið hefur einnig mikið að segja. Því meiri hiti því flóknari verða vínin. Ávöxturinn verður sætari og suðrænir ávextir koma fram og blóma anganin verður magnaðri. Vínrækt á sér langa sögu í Alsace, eða allt frá því að rómverjar hertóku Alsace og hófu þar vínrækt.

Á miðöldum voru vín frá Alsace meðal þekktustu og dýrustu vína í Evrópu. En frægðarsólin átti eftir að falla. Í 30 ára stríðinu 1618-1648 verður mikil eyðilegging á vínræktarsvæðum og íbúatalan hrynur. Gæði víns hrapar og eru þau upp og niður allt til 1945 að endurvakning Alsace vína verður. Héraðið hefur verið bitbein frakka og þjóðverja um aldaraðir, ýmist verið franskt eða þýskt og má af þeim sökum sjá skemmtilega blöndu af menningu beggja í matargerð og vínum meðal annars. Þó svo að Alsace hafi tilheyrt Þýskalandi þá má segja að alsacebúar séu franskari en allt franskt. Þegar þýskir herir þrömmuðu inn í Alsace 1940 klæddust íbúarnir klæðnaði sem hafði rauða, hvíta og bláa liti. Garðarnir voru gróðursettir blómum í fánalitunum. Fjórða júlí, sem er þjóðhátíðardagur frakka, viðruðu húsmæður ábreiður sínar og lök í gluggunum eins og þær gerðu venjulega, en nú voru rauðir, hvítir og bláir litir áberandi. Í Colmar bjó listamaðurinn Frédéric Auguste Bartholdi, sem í útlegð í París gerði frelsisstyttuna. La Marseillaise þjóðsöngur Frakklands var saminn af Rouget de Lisle, í Strassbourg, þar bjó einnig Guetenberg og vann hann þar að prenttækni sinni. Goethe var þar við nám og segir sagan að hann hafi klifið kirkjuturna reglulega til að lækna sig af svima.

Víngarðarnir teygja sig hundrað kílómetra frá suðri til norðurs allt frá Tann til Marlenheim. Þeir eru í 200 til 400 metra hæð í austurhlíðum Vosgesfjallanna og nær vínræktarsvæðið yfir 15000 hektara.

Alsace fær AOC viðurkenningu 1962 og 1975 bætist AOC Grand Cru við síða kemur AOC Crémant d´Alsace 1976. 50 Grand Cru víngarðar eru í Alsace og er Tann eina þorpið sem getur státað af því að allir víngarðarnir eru Grand Cru.

Alsace er þekkt fyrir einnar þrúgu vín, þó eru til vín gerð af fleirum en einni þrúgu og eru þau oftast kölluð zwicker eða edelzwicker. Alsace hefur þá sérstöðu í Frakklandi að vínin þaðan eru merkt eftir Þrúgutegund.

Sjö berjategundir eru notaðar í AOC vín og þar af 4 í grand Cru vín. Pinot Blanc, Sylvaner, Riesling, Tokay-Pinot Gris, Muscat d´Alsace, Gewürztraminer, Pinot Noir. Í Grand Cru vín má aðeins nota Riesling, Tokay-Pinot Gris, Gewürztraminer og Muscat.

En fleiri berjategundir eru einnig ræktaðar, þær eru Chasselas og Klevener de Heiligenstein meðal annarra. Í vínbúðum ÁTVR fást aðeins vín gerð úr: Riesling, Tokay-Pinot Gris og Gewürztraminer og Pinot Blanc fæst aðeins í sérbúðum, tvær tegundir með fleiri en einni þrúgu fást einnig.

Í Alsace eru einnig framleidd freyðivín, Crémant d´Alsace, það er gert með kampavínsaðferðinni, en freyðir minna.

Tveir aðrir flokkar eru til viðbótar Vendanges Tardives og Sélection de Grains Nobles.

Þau vín má aðeins gera úr sömu þrúgum og eru leyfðar í Grand Cru, en þurfa að auki að uppfylla viss skilyrði hvað varðar sykurmagn og alkóhólsstyrk.

Ekki má gleyma vel þekktum ávaxtabrennivínum t.d. Poire William´s og hratbrennivínum Marc d´Alsace.

Þrúgur í Alsace

Pinot Blanc gefur af sér mjúk vín, með gott jafnvægi og ljúffengum ilm. Finna má, epli, blóm m.a.

Sylvaner er létt, þurr, ávaxtarík með mikinn ferskleika. Auðdrekkanleg vín, stundum gáskafull. Grænn ávöxtur, oft hlutlaus.

Riesling Þróttmikil, þurr með ljúffengan ávöxt og þægilega sýru. Oft epli, fennel, grösug, sítrus, ferskja og steinefnakeimur. Að margra mati meðal bestu hvítvína. Bestu vínin verða betri með aldrinum.

Tokay-Pinot Gris Gjöful, bragðmikil, mjúk,feit, þurr og með langa endingu.

Flókinn ilmur. Bananar, ananas, ristað brauð, hnetur og reykur.

Muscat d´Alsace er þurrt og er frábrugðið sætum muscatvínum frá Suður- Frakklandi. Mjög ilmrík og minna á fersk vínber, blóm, rósir, ferskjur, sítrus, appelsínur.

Gewürztraminer er sennilega þekktast Alsace vína. Sérlega ilmrík og þurr. Með blómlegan ilm og krydd í bragði. Bananar, litchies, grapeávöxtur, engifer. Beikon.

Pinot Noir er eina rauðvínsþrúgan í Alsace. Þurr, ljós og létt rauðvín. Jarðarber, kirsuber, sólber.Alsace vín og matur

Fordrykkur og móttökur: Gewürztraminer.Forréttir:

Skelfiskur og sjávarréttir: Riesling og Pinot Blanc.

Fiskipaté og Sushi: Riesling og Pinot Blanc

Sterkkryddað salat: Gewürztraminer

Foie Gras: Tokay-Pinot Gris og Gewürztraminer.Fiskur:

Grillaður: Riesling

Soðinn með smjör eða rjómasósu: Riesling og Tokay-Pinot Gris.

Matreiddur með krydduðu og sterku meðlæti: Tokay-Pinot Gris og

Gewürztraminer.Fuglakjöt:

Ofnsteiktur kjúklingur: Pinot Blanc og Riesling.

Kjúklingur í sósu: Riesling, Tokay-Pinot Gris.

Kjúklingur matreiddur með bragðmeira eða sterkkrydduðu meðlæti: Tokay-Pinot Gris og Gewürztraminer.Kjöt :

Ljóst kjöt: Tokay-Pinot Gris og Pinot Blanc.

Vín frá Alsace henta mjög vel með austurlenskum mat og má alveg benda á Gewürztraminer, Tokay-Pinot Gris og í sumum tilfellum Riesling með kínverskum mat.

Sushi og Sashimi : Riesling, Tokay-Pinot Gris og Pinot Blanc.

Tempura : Riesling, Tokay-Pinot Gris og Pinot Blanc. Einnig Gewürztraminer en virkar ekki eins vel og Riesling og Tokay-Pinot Gris.

Indverskur matur: Tokay-Pinot Gris og Gewürztraminer, því meiri sæta í vínunum því betra.

Heimildir:

www.vinsalsace.com

French Wines, Robert Joseph.

Les Vins de Alsace, Alsace wine Information Centre.

Le Vin, André Dominé.

An Epicurian Tour Of The French Provinces.

The New Sotheby´s Wine Encyclopedia.