Hvað er áfengi?

Image
Hvað er áfengi?

Áfengi er samofið menningu okkar og neysla þess markar líf okkar meira en flest annað. Frá örófi alda hefur maðurinn sóst eftir því að komast í áfengisvímu og löngu áður en sögur hófust hafði hann lært að framleiða áfengi og var farin að nota það reglulega. Áfengi er í raun eina löglega vímuefnið í okkar heimshluta og neysla þess í hófi verður að teljast hluti af eðlilegu lífi fullorðinna og heilsuhraustra manna og kvenna. Framleiðsla, dreifing, sala, og neysla áfengis í okkar menningarheimi er í föstum skorðum og um hana gilda sérstök lög.

En hvað er þetta sem við köllum áfengi og erum mörg hver svo hrifin af?
Áfengur er sá drykkur kallaður er inniheldur alkóhól. Orðið alkóhól er í raun samheiti yfir lífræn efni sem hafa hýdroxýlhóp (-OH) tengdan við opna kolefnakeðju sem binst einungis vetnisatómum að öðru leyti. Þessi efni eru líka nefnd alifatísk alkóhól. Margar gerðir af alkóhólum eru til og áfengi er í rauninni eitt af þessum alkóhólum sem nefnd eru etanól á efnafræðimáli. Etanól er einfalt efni gert úr tveimur kolefnisatómum CH3CH2OH. Við annað þeirra er tengdur hydroxylhópur en að öðru leiti eru kolefnisatómin bundin vetnisatómum. Það leysist bæði upp í vatni og fitu.

Hreint er etanól vökvi sem er auðvelt að blanda saman við vatn í hvaða styrkleika sem er. Sameind etanóls er lítil og mjög fituleysanleg sem gefur efninu þá eiginleika að komast hratt og auðveldlega úr meltingarveginum inn í blóðstrauminn og dreifast með honum um allan líkamann þegar það er drukkið. Þannig berst efnið fljótt til allra líffæra og einnig til heilans því að það á auðvelt með að fara í gegnum háræðaveggi heilans þó að þeir séu þéttari (heilablóðþröskuldur) en háræðaveggir annarra líffæra. Alkóhólið dreifist um allan líkamann og líka til vöðva og út í fitu. Stórir, vöðvamiklir eða feitir einstaklingar þurfa því meira áfengismagn en litlir, grannir og vöðvaminni til að áfengismagnið í blóði verði það sama.

Þegar einstaklingur drekkur áfengi birtast fyrstu áfengissameindirnar í blóðstraumnum eftir aðeins eina mínútu. Um 10-20% af áfenginu er tekið upp strax í maganum. Hinn hlutinn er tekinn upp í mjógirninu, aðallega í skeifugörninni. Ef menn hafa borðað vel hægir maturinn á upptöku áfengis í maganum, einkum ef maturinn er feitur. Maturinn tefur einnig fyrir því að maginn tæmi sig niður í skeifugörnina og áfengið komist þangað og haldi áfram að komast út í blóðið. Í vegg magans og smáþarmanna er ensím sem brýtur niður áfengi (Gastric alcohol dehydrogenase). Þetta ensím byrjar að brjóta niður áfengi áður en það kemst út í blóðið. Konur hafa minna af þessu ensími en karlar og þeir sem drekka mikið hafa líka lítið af þessu ensími.
 
Konur fá hærra magn af áfengi í blóði en karlar
Þetta skýrir að einhverju af hverju konur fá hærra magn af áfengi í blóði en karlar eftir sambærilegan áfengisskammt. Lifrin losar líkamann við 90% af áfenginu með því að umbreyta því í önnur efni. Aðeins 5-10% af áfenginu er skilað óbreyttu út með öndunarlofti og með þvagi. Áfengismagnið í öndunarloftinu er í stöðugu og réttu hlutfalli við áfengismagnið í blóði. Þetta gerir það að verkum að mælar sem mæla áfengismagn í öndunarlofti eru mjög nákvæmir til að segja til um hvert áfengismagnið er í blóðinu. Í lifrinni er áfengi brotið niður í tveimur þrepum. Ensímið alkóhól dehýdrógenasi breytir áfengi fyrst í acetaldehíð (acetaldehyde).

Lifrin brýtur stöðugt niður sama magn af áfengi
Síðan breytir aldehíð dehýdrógenasi því áfram í ediksýru. Mörg ensím breyta síðan ediksýrunni í vatn og koltvísýring. Acetaldehíðið er í raun eitrað og veldur hvimleiðum einkennum: Roða, hósta, höfuðverk, ógleði og uppköstum sem við köllum einu nafni timburmenn. Ensímkerfi lifrarinnar eru fljótlega mettað og brýtur hún niður sama magn af áfengi jafnvel þó að þéttni þess sé aukist í blóðinu. Hraðinn helst líka sá sami þó að áfengismagnið minnki því að áfengi berst svo auðveldlega til lifrarinnar. Lifrin brýtur því stöðugt niður sama magn af áfengi sem er um það bil einn áfengissjúss á einni klukkustund. Reikna má með að þrír áfengissjússar ( 3 x 12 g af hreinu áfengi) um 3x 30 ml af sterku áfengi geri 80 kg karlmann óökufæran samkvæmt lögum.

Áfengi hefur velþekkta róandi verkun á heilann og hegðunina þó að í litlum skömmtum geti það örvað menn og gert þá málglaðari. Áhrif áfengis eru almenn róandi verkun sem er sívaxandi eftir áfengismagninu að svefni í dá og til dauða. Þannig er venjulegur maður góðglaður og málgefinn við áfengismagn sem er um 0,05 % í blóði og hömluminni en venjulega. Við áfengismagn frá 0,05%-0,1% kemur róandi verkunin fram og einstaklingurinn fer að slaga, er seinni að bregðast við og á erfitt með að einbeita sér. Við áfengismagn frá 0,1% til 0,2% verða menn þvöglumæltir og fram kemur vaxandi truflun á hreyfingum og meðvitundarástandi. Við hærra áfengismagn deyja menn áfengisdauða og svefninn verður stöðugt dýpri þar til hætta er á að öndunin lamist við áfengismagn sem er um 0,5% Við mikla og tíða áfengisdrykkju fara menn að þola betur áfengi með tímanum.

Áfengisþol
Áfengisþol myndast. Slíkir einstaklingar sýna mun minni áfengisáhrif en ætla mætti út frá áfengismagninu sem er í heilanum. Þeir fá það sem kallað er hegðunarþol gagnvart áfenginu. Slíkir einstaklingar losa sig líka hraðar við áfengi úr líkamanum því að lifrin fer að brjóta áfengið hraðar niður. Þetta lyfjafræðilega þol skiptir þó minna máli en hegðunarþolið. Þegar þol hefur myndast leiðir það venjulega til aukinnar drykkju og meiri hættu á skemmdum á líffærum, meðal annars heilanum. Hegðunarþolið verður vegna aðlögunar taugafrumanna að stöðugu áfengismagni í blóði. Aðlögunin fæst vegna þess að stöðug drykkja veldur breytingum á frumuhimnum og viðbrögðum við boðefnum. Vegna þessara breytinga myndast ekki bara þol heldur fer svo stundum að heilinn getur ekki unnið eðlilega nema að hafa áfengi. Þá hefur líkamleg vanabinding myndast og ef drykkju er skyndilega hætt við þessar aðstæður koma fram fráhvarfseinikenni.

Fráhvarfseinkenni
Fráhvarfseinkennum má ekki rugla saman við eftirköst eftir mikla drykkju eitt kvöld. Slík eftirköst eru vegna eituráhrifa áfengis og einkennast af höfuðverk og ógleði og ertingu frá meltingarvegi ef drukkið var óblandað sterkt áfengi. Fráhvörf er allt annars eðlis og verða vegna þess að heilinn hefur aðlagað sig stöðugu áfengismagni. Sé drykkju hætt er heilastarfsemin sett úr jafnvægi í 1 til 3 daga. Fráhvarfseinkenni frá áfengi eru venjulega skjálfti, óróleiki og ofstarfsemi á adrenerga hluta sjálfráða taugakerfisins sem meðal annars kemur fram í hröðum hjartslætti og háum blóðþrýstingi. Alvarlegri fráhvarfseinkenni eru krampar, ofskynjanir eða titurvilla (Delerium tremens). Áfengi víkkar út æðar í húðinni og veldur hitatilfinningu í fyrstu en lækkar líkamshita þegar til lengri tíma er litið og því er hættulegt að nota það gegn kulda. Á sama hátt er þeim sem deyja áfengisdauða og sofna úti mjög hætt við að krókna. Áfengi dregur úr losun antidiuretic-hormóns og veldur þannig þvagræsingu. Fólk fer því venjulega á klósettið að pissa eftir að hafa drukkið einn eða tvo áfengisskammta.

Áfengi hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda
Menn lærðu snemma að áfengir drykkir urðu til ef þeir geymdu ávaxtasafa, hunang eða uppbleytt korn við vissar aðstæður. Við vitum nú að gerlar komast í þessa drykki eða saftir og brjóta niður sykurefnin sem í þeim eru. Gerlarnir nota þessar efnabreytingar til að búa til orku en um leið myndast aukaefni ethýlalkóhól og koldíoxíð. Áfengið er því úrgangur þessara gerla. Þegar áfengið er orðið um 15% í vökvanum sem er að gerjast drepur það gerlana og gerjunin hættir. Vín verður til þegar sykurefnin í ávöxtum eru látnir gerjast. Menn lærðu einhvern veginn að ávaxtasafi varð áfengur ef vissir ávextir voru marðir og safanum var safnað í ílát og látinn standa. Fyrstu skrifuðu heimildirnar um vínframleiðslu eru 6000 ára og eru frá Egyptalandi. Á þeim tíma tilbáðu Egyptar Osiris sem vínguð og guð dauðans. Fornleifar benda til þess að vín hafi verið framleitt að minnsta kosti 2000 árum fyrr. Vín er einnig nefnt nokkrum sinnum í Kviðum Hómers. Þegar hunang er látið gerjast myndast mjöður. Slík áfengisframleiðsla er mjög algeng meðal ýmissa frumbyggja. 

Bjór hefur verið notaður að minnsta kosti 8000 árum fyrir Krists burð
Í Hávamálum er vikið að miðinum og notkun hans og í Íslendinga sögum má lesa um drykkju mjaðar. Bjór verður til við að láta sykurefni í korni gerjast. Fyrstu skrifuðu heimildirnar um bjórframleiðslu eru um 4000 ára en fornleifar benda til þess að bjór hafi verið notaður að minnsta kosti 8000 árum fyrir Krists burð. Sá bjór var mun þykkari og matarmeiri en sá bjór sem við nú þekkjum. Með eimingu tókst að búa til mun sterkara áfengi úr víni, miði eða bjór. Gerjaður vökvi er þá hitaður og sýður þá áfengið á undan vatninu og myndar gufu. Ef gufan er leidd í rör og kæld þéttist hún og verður að vökva og hafa menn þá í höndunum mun sterkara áfengi en vín og bjór. Slíkur vökvi fékk latneska heitið spiritus, vínandi.

Fyrstir að kunna listina að eima
Sagt er að Kínverjar hafi fyrstir kunnað listina að eima. Af þeim lærðu Arabar það og heimildir eru til um að Arabar hafi búið til sterkt áfengi um 860. Frakkar urðu fyrstir Evrópumanna til að læra þessa list á 13. öld. Sterkt áfengi var fyrst notað á Norðurlöndum á 16. öld. Áfengi er í eðli sínu eitur líkt og aðrir vímugjafar. Í litlu magni er áfengi þó frekar meinlaust. Stöðug ofdrykkja áfengis getur aftur á móti haft alvarlegar afleiðingar á líkamsstarfssemina. Yfirleitt eru mörk ofdrykkju og hófdrykkju skilgreind sem einn tvöfaldur á dag í 20 ár hjá karlmanni að meðaltali og helmingi minna hjá kvenmanni. Þar er því um að ræða dagdrykkju eða túramennsku. Aftur á móti ætti eðlilegt helgarkennderí við og við að vera sauðmeinslaust. Ofdrykkja áfengis getur t.a.m. valdið áfengissýki, lifrarskemmdum, heilaskemmdum hjartsláttatruflunum, vélindabakflæði, magasári og magabólgum.

Hjörtur Einarsson tók saman.