Globus hf

Finndu vín eða framleiðanda

Hafðu samband

Verðlisti

Vín úr lífrænni ræktun

Greinin birtist í Gestgjafanum, 13. tbl. 2006

Vín úr lífrænni ræktun.

Þegar ég var háskólanemi í Frakklandi, var algengt að fá vinnu á hausti við uppskeru þar sem skólinn byrjaði yfirleitt ekki fyrr en í byrjun október. Ég fór þá í Beaujolais hérað í gegnum kunningskap (sem var auðsótt) – og á ekrunum var það ávallt mikið kappsmál hjá okkur að vera fyrstur að klára raðirnar og tína sem hraðast til að hvílast á milli raða. Fyrsta daginn gleymdi maður sér, og við endann á röðinni lét maður freistast að narta í vínberin sem voru bústin og falleg. Undanteikningalaust fengu þau sem létu freistast refsingu fyrir stuldinn, þau fengu rækilega í magann og dauðsáu eftir því… og gerðu það ekki aftur fyrr en að ári liðnu. Við gleymdum nefnilega alltaf að það var búið að sprauta vínekrurnar með súlfít-blöndu til að koma í veg fyrir grámyglu og sveppasýkingu í þrúgunum.

Nú eru tímarnir aðrir og vínbændur hafa breytt ræktun sinni – tíðarandinn hefur breyst og notkun á kemískum efnum hefur minnkað. Einnig hefur rannsóknum fjölgað og margt stendur mönnum til boða sem vilja rækta lífrænt. Lífræn ræktun hefur í dag tvö andlit: annars vegar lífræn ræktun og “biodynamic” (sem Ólafur Dýrmundsson landsráðunautur BÍ þýðir fallega sem “lífefld”) sem fer lengra og byggist á heimspeki Rudolfs Steiner, heimurinn og geimurinn eru ein heild og samvirkjandi þannig að ræktunin verður að eiga sér stað í fullu samræmi við þetta mun stærra umhverfi. Fleiri og fleiri leggja á þessa braut og lífræn ræktuð vín eru betri og betri – án þess að verðið sé uppsprengt.

Lífrænt ræktaðar þrúgur.
Að grunni til er lítið sem aðgreinir lífræna ræktun í vínekru og í landbúnaði almennt og er hún vottuð eins. Tilbúinn áburður, skordýraeitur og öll eiturefni önnur sem notuð eru til að vernda gegn sníkjudýrum eða -plöntum eru á bannlista svo og erfðabreyttar plöntur. Aðrar leiðir til verndar vínvíðarins eru nokkuð margar og náttúrulegar. Þær stefna að því að bæta jarðveginn og gera hann sjálfbæran, lífandi og nærandi fyrir plöntuna sem á ekki að þurfa tilbúinn áburð: plægja á milli raða (myndast þar með næringarefnin þegar gróðurinn rotnar) í staðinn fyrir að eitra með illgresiseyði þegar gras er óæskilegt, stjórna grasvextinum þegar grasið gagnast vínviðnum (ræturnar í vínviðnum fara þá í samkeppni við grasið, fara dýpra, erfiða meira og verða sterkari), nota safnhaug eða náttulega áburði. Skordýraeitur drepur allt, fjandlegu skordýrin jafnt sem nýtilegu. Rauðu kongulærnar sem eyðileggja laufin eiga sér til dæmis náttúrulegu fjandmenn, stærri svartar kóngulær: smám saman koma þær aftur þegar eitrinu er sleppt og losa vinekruna við þær rauðu, þá koma fuglarnir einnig aftur og jafnvægi í vistkerfinu eykst. Maríuhænur eru dugnaðarforkar í því að losa plöntur við smærri pöddur. Fiðrildin geta verið plága þegar lirfur þeirra vakna til lífsins og er það mjög algeng sjón að sjá lítil brún hylki sem hanga á vírunum á milli plantna sem innihalda kvenhormón sem rugla karlfiðrildi og gerir það að verkum að hann finnur ekki kvenndýrið og parar sig ekki (límgildrur eru einnig notaðar svo lirfan klifri ekki). Fiðrildin verða áfram til yndisauka en ekki óæskilegar afleiðingar veru þeirra á vínekrunum. Af hverju eru rósarunnar víða við enda vínekranna? Þær smitast jú fyrstar af sveppasýkingu og gefa vísbendingu um að það þurfi að gripa inn gegn henni – í hófi og á réttum tíma.
Þegar slær samt á ógæfuhlíðina eru til lausnir með náttúruafurðir sem þarf ekki að tíunda nákvæmlega hér. Þetta hljómar einfalt og augljóst, en kreftst mikið meiri vinnu af vínbóndanum (20-30% auka vinnukraftur) sem framleiðir minna og eru þetta stærstu þættirnir í aukakostnaði sem hlýst af lífrænni ræktun hvort sem er á vínekru eða í landbúnaði almennt. Vínin verða aftur á móti betri og gefa mun betri túlkun af sínu “terroir” (= jarðvegur + loftslag + mannauður) en ella.

Öll umræða um lífræna ræktun hefur vakið þá til vitundar sem búa ekki endilega yfir þeirri sannfæringu eða fjárráðum sem þarf til að fara alla leið, og sér maður mun víðar vistvæna ræktun, sem er víða vottuð eins og lífræn ræktun. Hún leyfir notkun tilbúinna áburða og eiturefna en í litlu mæli. Þetta er stórt skref í áttina að betra umhverfi og er það staðreynd að fleiri og fleiri vínbændur fá ráðgjöf um hvernig á að fara að, og taka þessa stefnu.

Vottun lífræna vína.
Víngerðin sjálf hefur ekki enn fengið neitt formlegt vottunarferli og lífræn vín eru í raun “vin búin til úr lífrænt ræktöðum þrúgum”. Í Evrópu er tilskipan fyrir hendi frá 1991, sem gildir í öllum löndum ESB. Aðlögunartímabilið er 3 ár og úttekt er framkvæmd af vottunarstofum einu sinni á ári (á kostnað framleiðandans!). Annars staðar í heiminum er lífræn ræktun vottuð af stofum sem flestar fylgja stuðlum gefnum út af IFOAM, sem er alþjóðasamtök lífrænna framleiðanda.
Það má þar af leiðandi ganga út frá að í dag eru vínin sem tilkynna sig lífræn eru það í raun og vottuð samkvæmt ströngustu kröfum, mjög svipuðum um heim allan.

Í dag leiða Ítalir lífræna ræktun með 37000 ha (4% af vínekrunum), næst koma Frakkland (12400 ha eða 2% ), Spánn sem er í stórsókn sérstaklega á nýjum svæðum eins og La Mancha (12000 ha eða 1%) og Californía (7000 ha eða 3%). Stærsti markaður fyrir þessi vín er í Þýskalandi, fast á eftir fylgja Norðurlöndin og England – Bandaríkin og Japan stækka mest.

Af hverju lífræn vín? Súlfít og önnur aukaefni.
Sjálfsagt byrja áhrifin af lífrænni ræktun í náttúrunni strax eins og lýst var að ofan og gagnast samfélaginu öllu. En þar sem manneskjan er ekkert annað en það sem hún lætur ofan í sig, eru áhrifin á okkur töluverð. Eða réttara sagt getur vín framkallað ofnæmi sem minnka verulega þegar skipt er yfir í lífræn vín.
Lítið er birt um rannsóknir á ofnæmisvöldum í víni en helst er að sakast við histamin og súlfít. Histamin veldur ofnæmisviðbrögðum eins og roða, kláða, hnerra, nefrennsli – efnið er til staðar í víni væntanlega frá náttúrunar hendi en ekki er vitað mikið meira en það. Súlfít aftur á móti er aukaefni (brennisteinsblanda) sem notað er í víngerð og getur valdið ofnæmisviðbrögðum, en nær eingöngu hjá astmasjúklingum – reiknað er með að 5% astmasjúklingar þoli illa súlfít.
Súlfít virkar sem andoxunarefni og er sótthreinsandi og hefur ekkert komið í staðinn fyrir það í víngerðinni enn. Það er notað til að stoppa seinni gerjun (mjólkurgerjun) í rauðvíni og hefta bakteríufjölgun. Tilraunir hafa verið gerðar og þegar súlfítunum er sleppt verða 4 af 10 flöskum gallaðar…
Það er orðið skylt í sumum löndum að taka fram á miðanum “inniheldur súlfít” og stundum magnið. En vínin frá Evrópu fara eftir löggjöf frá ESB, þar sem súlfít mega ekki fara yfir 160 gr/l fyrir rauðvínið til dæmis (210 gr/l fyrir freyðivín, 400 gr/l fyrir sætu vínin). Lífræn vín mega ekki fara yfir 70-80 gr í öllum tegundunum. En súlfít magnið minnkar með árunum (um 20 gr) þannig að lausnin getur verið að kaupa eldri árganga… og oft dýrari!
Lítið er vitað um hvað getur valdið migreni í léttvínunum, en það er nokkuð augljóst að því minna af aukaefni sem við innbyrgjum, því betra fyrir heilsuna – við verðum viðkvæmari með tímanum þar sem iðnaðarframleiðslan á matvælum og aukaefni sem þar eru notuð (rotvarnarefni og fleiri) veikja ónæmiskerfið. Sömuleiðis er ekki hægt að fullyrða að Cabernet Sauvignon sé meira ofnæmisvaldandi en Merlot eða aðrar þrúgur – en hér verður hver og einn að finna það sem hentar.
Gæði lífrænna vína sem fást í Vínbúðum (þótt úrvalið sé ekki ýkja stórt) eru slík að óhætt er fyrir þá sem eru viðkvæmir að tileinka sér neyslu þeirra – og fyrir alla hina að prófa þau og þar með styrkja vistvæna stefnu þar sem við sjálf erum hluti af vistkerfinu.

Dominique Plédel Jónsson